Teiknum saman reynir á sköpun út frá verkunum sem eru í umfjöllun. Nemendur eru fengnir til þess að skapa eigin verk út frá ákveðnum viðmiðum verkefna og sjónlistarverkunum sem verið er að vinna með. Verkefnin reyna á alla þrjá lykilþætti sjónlistar aðalnámskrá grunnskóla en stuðlar helst að sköpun.

Listin í þínum höndum.

Ef þú værir listamaðurinn sem teiknaði eða málaði myndina og þú þurftir að breyta einhverju einu við myndina, hverju myndir þú breyta? Myndir þú breyta litavalinu, bæta einhverju við eða taka eitthvað í burtu? Hvers vegna myndir þú gera þessa breytingu en ekki aðra? Teiknum og segjum frá!

Tíminn og listin

Að teikna eða mála mynd tekur oft rosa langan tíma. En hvað myndi gerast ef listamaðurinn væri að drífa sig rosalega mikið? Við skulum skoða það með því að teikna sama listaverkið aftur og aftur, Byrjum á 1 mínútu. Svo prófum við að teikna í 2 mínútur. Þriðja teikningin tekur svo 4 mínútur, fjórða 8 mínútur og sú síðasta fær heilar 20 mín þar sem við reynum að teikna og lita eins mikið og við getum! Hvernig gekk? Var hægt að teikna svona mikið á svo stuttum tíma? Spjöllum um það.

Eins og í gamla daga…

Hvernig voru hlutir áður en myndavélin var til? Maður gat ekkert tekið mynd af málverki og sýnt öðrum, heldur þurfti maður að segja frá hvað var að gerast í málverkinu. Við skulum prófa þetta. Tveir vinna saman þar sem einn er að teikna og hinn velur sér mynd og lýsir hvað er að gerast í listaverkinu. Áhorfandinn segjir frá litunum, myndefninu og öllu sem er að gerast á meðan teiknarinn teiknar. Svo þegar myndin er tilbúin er skipt um hlutverk. Eina reglan er sú að persónan sem er að teikna MÁ EKKI sjá eða vita hvaða listaverk er til fyrirmynda nema þegar hann er búinn að teikna. Breyttust myndirnar eitthvað eða voru þær alveg eins? Var erfitt að segja frá myndinni eða gekk það vel? Ræðum það saman.

Previous
Previous

Skoðum saman

Next
Next

Tölum saman