Upplýsingar
bæklingurinn
Hér eru helstu upplýsingarnar sem gott væri að vita áður en það er haldið lengra í Rafræna Safnið.
Tíminn er eins og lækur (2022) Eftir Jens Thinus.
Rafræn list (Microsoft Paint)
Hugmyndin á bak við rafræn söfn.
Rafræn söfn er samansafn af myndum, hljóði, texta eða önnur gögn sem tilheyra sögulegum, vísindalegum eða menningarlegum mikilvægum eins og öll hefðbundin söfn eru, nema að rafræn söfn eru einungis á netinu. Tilgangur þeirra er að endurgera upplifunina sem maður hefur þegar maður mætir á listasafn í alvöru heiminum (Britannica, T. 2017).
Rafræn söfn urðu mjög stór hluti í safnaheiminum þegar COVID-19 heimsfaraldurinn stóð yfir og eina lausnin til þess að komast fram hjá samgöngubanns var nefnilega með rafrænum söfnum. En nú þegar COVID-19 fer að róast og samkomubönn falla úr gildi eru þessi söfn enn þá standandi á netinu.
En af hverju eru rafræn söfn til? af hverju förum við ekki bara á alvöru safn?
Með rafrænum listasöfnum fær fólk tækifæri til þess að upplifa listina án takmörkum raunheimsins, eins og mannfjöldans, tímatakmörkunum opnunartíma og staðsetningu vegna uppsetningu safnsins á netinu. Líka fá þeir sem hafa ekki aðgang að listasöfnum í sínu umhverfi tækifæri til þess að upplifa listina í gegnum rafrænan miðil (Verity Burke, Dolly Jørgensen og Finn Arne Jørgensen, 2020).
Hvað erum við að leitast eftir í myndinni?
Þegar við sjáum málverk eða mynd er mikilvægt að við stoppum og horfum, en ekki að við stöndum bara ekki, horfum í smá stund og löbbum svo í burtu að næsta verki. Ef við gerum það þá fáum við ekki jafn mikið úr myndinni og við myndum gera ef við stoppum og gefum okkur tækifæri til þess að skoða hverja mynd vel.
Þegar við erum að skoða er gott að spyrja sjálfan sig, hvað sé ég í þessu verki? Af hverju sé ég það sem ég sé? og hvað sé ég meira? Þessar þrjár spurningar eru grunnur á bak við hugmyndir myndlæsis.
Myndlæsi er hæfileikinn til lesturs og vinnslu með myndir til þess að greina skoðanir og sjónarhorn einhvers á myndinni. Myndlæsið byggist á tungumálafærni, tjáningu og samskiptum. Þegar unnið er með myndlæsi er notað umræðu- og spurningaraðferðir þar sem þátttakendur fá góðan tíma til þess að koma fram eigin tjáningu, lýsingu eða túlkun um það sem einstaklingurinn sér (Ragnheiður Vignisdóttir, Marta María Jónsdóttir og Anja Ísabella Lövenholdt, 2023).
Í verkefnisþætti Rafræna Safnsins eru verkefni sem reyna á myndlæsi, en þegar það er unnið með það er alltaf gott að gefa fólki nægan tíma til þess að hugsa. Aðrir punktar sem gott væri að hafa í huga að bíða með allar upplýsingar um verkið eftir að umræður hafa átt sér stað, vegna þess að vitneskja um verkið getur haft áhrif á það hvernig við sjáum verkið.
Við skulum alltaf reyna að fá einstaklinga til þess að rökstyðja sínar eigin skoðanir. Rökstuðningur hjálpar einstaklingum til þess að kafa dýpra í verkið og annaðhvort þjálfar hann að mynda eigin skoðanir eða þróa nýjar kenningar. Lykilþáttur myndlæsis er í lok alls sá að þátttakendur fá lykilhæfni til þess að skoða og njóta myndlistarinnar í hvaða formi sem er og þjálfi hæfnina til tjáningar, virka hlustun, hugtakaskilning, rökleiðslu og gagnrýna hugsun (Ragnheiður Vignisdóttir, Marta María Jónsdóttir og Anja Ísabella Lövenholdt, 2023).
Algeng hugtök í myndlist.
-
Þegar við sjáum línur í listaverki getur það þýtt margt. Línur geta sýnt okkur hvort myndin sé kyrr eða á hreyfingu. Þegar línurnar eru beinar myndast oft jafnvægi og kyrr, en þegar línurnar eru bognar myndast hreyfing eða óreiða. Ef hreyfingin er þunn og mjúk getur það þýtt að hreyfingin er laus og fínleg meðan grófar, þykkar línur geta þýtt kraftmikinn straum eða sterkan vind.
Listamaðurinn getur einnig ákveðið að nota línur sem tól til þess að leggja áherslu á ákveðnum atriðum, punktum og hlutum sem eru að gerast á myndinni. Línan getur einnig kallað fram dýpt í verkið með fjölbreyttum aðferðum eins og punktafjarlægð eða með hniðaneti.
-
Við teikningu er hægt að byggja allt upp með formum. Form eru oft notuð til nákvæmrar uppbyggingar listaverka og hægt er að kafa djúpt í formfræði listaverks. Í listaverkum getur maður fundið allskonar form, en hægt er að flokka þau niður í tvo meginflokka. Þeir eru náttúruleg og ónáttúruleg form.
Ónáttúruleg form eru eins og grunnformin, hringur, ferningur, þríhyrningur, form sem eru bundin við sérstaka uppbyggingu á meðan náttúruleg form eru ekki bundin við neina ákveðna skilgreiningu og eru bara form án regla.
Notkun forma getur einnig verið táknræn. Hringlótt og mjúk form geta táknað vinaleika, þægindi á meðan oddhvöss, beitt form geta þýtt hætta, streita eða árásargirni.
-
Listamenn nota oftast liti þegar þeir mála málverkin sín. Litir skiptast upp í heita og kalda liti og geta haft áhrif á það hvort myndflöturinn sé kaldlegur eða hlýr. En notkun lita er ekki einungis bundin við lögmál litahringsins.
Bjartir litir, hvort þeir séu heitir eða kaldir geta kallað fram líf í myndinni, bjartleika og von á meðan þungir, dökkir litir geta gert myndina drungalega eða þunga og alvarlega. Mynd getur líka bara verið svört og hvít og með því er hægt að gera allskonar hluti.
Litirnir hjálpa listamanninum til þess að byggja upp andrúmsloft verksins. Með mismunandi tónum lits getur listamaðurinn einnig myndað skugga og skapað dýpt og fjarvídd á flata myndflötinn.
-
Listamaðurinn getur ákveðið hvort hann vill vinna með einhver ákveðin þemu í myndefninu sínu. Þemun geta verið einhver ákveðin sería af verkum sem innihalda öll svipað myndefni um ákveðinn hlut eða hvort það sé eitthvað sérstakt sem listamaðurinn vill koma fram í verkinu sínu.
Þemun geta verið misdjúp. Eitt þema gæti verið íslenskt huldufólk á meðan annað þemað fjallar um sársauka og þjáningu fólks í ásóttum löndum, ákveðið augnablik í mannkynssögu eða tengingu mannkynsins. Þemun eru ólík endalaus eins og myndefni listar og listamennirnir sem skapa þau.
-
Yfirlýsing er oft stuttur texti eða upplýsingar sem listamenn láta fylgja með verkum, hvort þau hanga við hlið verksins á sýningunni eða eru annar staðar. Með yfirlýsingunni getur listamaðurinn sagt frá listaverkinu sínu, hvaða efni hann er að taka og hver var kveikjan. Yfirlýsingin getur verið á margskonar hátt, hvort hún sé í einhverju formlegu bundu máli eða í frjálsara máli.
-
Líkt og þemu, þá er myndefni það sem er að gerast á málverkinu. Oftast er talað um það að svæðið sem málverkið er að gerast á heitir myndflötur. Myndflöturinn er striginn eða ramminn sem listaverkið er sett upp á.
Myndefnið getur verið einfalt, flókið eða fjölbreytt. Þegar við tölum um myndefnið er oft gott að vita hvaða listastefnu verkið tilheyrir til þess að fá dýpri innsýn inn í vinnu verksins og sögu stefnurnar. Hér fyrir neðan eru helstu listastefnurnar sem eru sýndar hér í Rafræna Safninu.
Helsu listastefnur sem eru sýndar á Rafræna Safninu.
Náttúrulistir
Í náttúrulistum er oft hugsað um natúralisma, en það er sú listastefna sem leggur áherslu á það að líkja eftir fyrirmyndum náttúrunnar. Myndir natúralismans líkjast oft mjög nákvæmlega lýsingum raunveruleikans. Nakin fjöll og jöklar í fjarska voru myndefni sem vöktu upp spurningar um hvort grótsruga landslagið væri sem mætti kalla einkenni landsins. Náttúrulistir voru oft helsta myndefni listaverka á fyrstu listarárum Íslands.
Expressjónismi
Expressjónismi er listastefna sem varð til í lok 19. aldar. Heitið á uppruna sinn frá enska orðinu express, sem þýðir bæði að tjá sig sýna svipbrigði, sem er nákvæmlega það sem expressjónistarnir vildu gera. Expressjónistar notuðu oft sterka liti og gróf pensilför til þess að tjá tilfinningar sínar, líðan og reynslu. Litir myndanna þurftu ekkert að vera raunverulegir og notuðu þá liti sem pössuðu við þær tilfinningar sem þeir vildu lýsa.
Portrett
Portrett eru verk sem listamaður hefur málað eða teiknað af sjálfum sér eða öðrum. Þessar myndir kallast einnig andlitsmyndir og geta tilheyrt hvaða stefnu sem er.
Súrrealismi
Á tímanum milli fyrri og síðari heimsstyrjaldarinnar varð mikil hreyfing í bókmenntum og listum sem bar nafnið súrrealismi. Heitið súrrealismi væri hægt að þýða yfir á íslensku sem ofurveruleika þar sem “sur” á frönsku þýðir “fyrir ofan”. Hægt er að segja að súrrealisminn kom frá dadaismanum, en báðir hóparnir vildu hrista upp í hugmyndum fólks um list og lífið sjálft. Þeir vildu gera uppreisn gegn þeim hugsunarhætti sem við höfum og stroka út öll mörk milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika.
Impressjónismi
Impressjónismi er frönsk listastefna frá lok 19. aldar og er oft talin vera sú fyrsta nútímalistastefnan. Þeir sem máluðu eftir þessari stefnu töldu birtuna vera mikilvægasti þátturinn í málverkinu og yfirgáfu vinnustofur sínar til þess að mála úti. Þeir vildu mála sína upplifun á ákveðnu myndefni og túlka það sem þeir sáu niður á strigann sinn. Þeir máluðu hratt því þeir vildu fanga augnablikið sem þeir upplifðu, sem leiddi til þess að í málverkunum var ekki mikið af smáatriðum og pensilförin voru þykk og á hreyfingu.
Abstrakt
Abstrakt eða abstraktlist er listastefna sem varð til í byrjun 20. aldar. Það sem það þýðir þegar mynd sé abstrakt er að hún sé óhlutbundinn. Á henni eru engar þekkjanlegar verur eða hlutir. Málverkin eru oft máluð í sterkum litum og með ónáttúrulegum geometrískum formum. Abstraktlistin þróaðist mikið út frá expressjónisma og kúbisma. Þeir listamenn sem aðhyllast abstrakt vilja oft að litirnir og formin mynda verkið eitt og sér og halda því fram að verkin hafi sitt eigið listræna gildi þrátt fyrir það að því líkist engu ákveðnu.
(Íslensk Listasaga og Listavefurinn)
Samstarf við Listasafn Árnesingar.
Upplýsingar um Listasafn Árnesinga.
Verkefnið Rafræna Safnið er unnið í samstarfi við Listasafn Árnesinga. Safnið er í eigu héraðsnefndar Árnesinga, en öll sveitarfélögin í Árnessýslu eiga aðild að henni. Listasafn Árnesinga var á sínum tíma fyrsta listasafnið utan höfuðborgarsvæðisins opið almenningi. Safnið býður upp á fjölbreyttar sýningar sem veita aðgengi að þeim myndlistararfi sem það varðveitir. Sýningarstefnan er margbreytileg en áhersla er oft lögð á skírskot á umhverfi Suðurlands. Safnið heldur úti markvissu fræðistarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum, fræðimönnum, listamönnum eða almenningi. Listasafnið heldur einnig reglulega smiðjur og námskeið fyrir almenning þar sem gefið er kostur að vinna með ólíka miðla í tengslum við sýningu safnsins. Lykiláhersla Listasafn Árnesinga er að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á myndlist (Listasafn Árnesinga, 2023).
Listasafn Árnesinga er staðsett í Austmörk 21, Hveragerði og nánari upplýsingar um starfsemi þess má finna á listasafnarnesinga.is